Höfn
Sögur
Börn máttu ekki fara ein í fjöruna, sérstaklega ekki eftir að tók að skyggja. Ef þau væru ein myndi klappakallinn taka þau. Hann bjó á klöpp eða undir klöpp. Börnum þótti spennandi að fara niður í fjöru og ein frásögn af njósnaför barna nálægt heimkynnum klappakallsins sagði að hann væri svartur, með hvítum doppum, lítill og feitur.
Heiður Sigurgeirsdóttir, 27. október 2022.
Ég er fædd fyrir miðja síðustu öld, árið 1949. Þar kom ekki rafmagn fyrr en ég var 12 ára, þar var ekki klósett bara kamar og koppar undir rúminu. Þá voru rollurnar með ullina á sér fram eftir sumri, það var ekki rúið eins og núna, þá tapaðist svolítið úr hjá þeim þegar þær festu sig í vír og svoleiðis, svo við systkinin fórum að hugsa þegar við sáum þessa ull út um allar trissur fórum við af stað og týndum hana í poka, alla ull sem við fundum. Þetta var rétt fyrir jólinu svo fórum við með pokann þangað sem Pakkhúsið er núna, þar fengum við aur fyrir ullina. Við gátum þá safnað í reikning fyrir þennan aur sem við fengum, það voru oft troðnir pokar og við gátum svo keypt jólagjafir fyrir fjölskylduna fyrir þennan aur. Þetta gerðum við í mörg ár, þetta var bara sjálfsþurftarbúskapur það sem reynt var að nýta allt. Þá var mikið borðað af silung, ál og skotnum gæsum, mikil matarkista úr náttúrunni, þá voru auðvitað ekki til frystikistur því það var ekki til rafmagn. En bændur áttu hólf sem voru þar sem sláturhúsið var, þangað var svo farið um helgar til þess að sækja svið eða lambakjöt og þá fékk maður stundum mola úr einu búðinni sem var til þá. Þetta var góður tími og ég er rík að hafa fengið að upplifa þetta.
Steinunn Benediktsdóttir 27.10.2022
Árið 1929 fæddust tvíburabræðurnir Ágúst og Haukur Runólfssynir. Þeir ólust upp á Höfn í Hornafirði í húsi sem kallað var Laufás og stendur nú að Hafnarbraut 39. Þetta hús var 15. húsið sem byggt var á Höfn, og var byggt um 30 árum á eftir fyrstu versluninni, sem byggð var árið 1897. Höfn byggðist af fátæku fólki, sem flutt hafði þangað úr sveitunum eftir að verslunin var opnuð, út af atvinnumöguleikunum sem hún skapaði. Lífið á Höfn var sjálfbært og byggðin var nokkuð dreifð svo að fólk gæti átt skepnur og ræktað mat. Hafið var einnig mikilvæg matarkista fyrir Hornfirðinga. Fólk veiddi silung, seli, lúru, og síli, eins og loðnan var kölluð.
Þegar bræðurnir Ágúst og Haukur voru á aldrinum 11 til 14 ára áttu þeir lítinn árabát, sem þeir notuðu mikið við að sigla um fjörðinn. Fjörðurinn var þeirra leiksvæði, en leikurinn fólst mest í því að bera björg í bú. Miklar breytingar hafa átt sér stað á Höfn síðan þá. Á þessum tíma gátu strákarnir siglt bátnum sínum frá húsinu sínu og út í sjó, en á þessu svæði er þurrt land í dag. Þessar breytingar hafa átt sér stað út af landrisi og landfyllingu.
Á þessum tíma var mikið um það að strákar væru úti í firði, en stelpur sinntu heimilisverkum. Bræðurnir höfðu byssu í bátnum, sem þeir notuðu til að skjóta seli. Þá reri annar bátnum á meðan hinn lá fremst í bátnum og skaut af byssunni. Þeir bræður áttu það til að rífast um það hver fengi að skjóta selinn og leystu því vandamálið með því að sigla að Rauðabergsey eða Arfaskeri til að slást þar um það hver fengi að skjóta.
Strákarnir voru uppátækjasamir og einn daginn, þegar mikill vindur var úti, tóku þeir upp á því að setja segl á árabátinn sinn. Þeir fóru af stað við Silfurnesið, þar sem golfvöllurinn stendur í dag. Rokið var svo mikið að strákarnir þeyttust áfram og misstu stjórn á bátnum. Þennan dag var húskveðja á Bakka, sem stóð við sjóinn vestan megin á Kirkjubrautinni, og fólkið þar sá strákana þeytast fram hjá. Báturinn stöðvaðist ekki fyrr en strákarnir lentu á Austurfjörum, þar sem báturinn brotnaði og seglið fauk á haf út. Í hvert sinn sem þeir hittu fullorðinn einstakling næsta mánuðinn voru þeir hundskammaðir fyrir þetta uppátæki sitt.
Í seinni heimsstyrjöldinni komu breskir hermenn til Hornafjarðar, og settu þeir meðal annars niður búðir sínar á Melatanga. Bræðurnir Ágúst og Haukur komu þar við á ferðum sínum um fjörðinn, og myndaðist vinátta á milli þeirra og hermannanna. Strákarnir lærðu ensku og pílu. Þeir fengu einnig að hjálpa hermönnunum, sem þeim fannst mjög spennandi. Þeir fengu hjálma og óhlaðnar byssur og áttu að standa vörð úti á Melatanga á meðan hermennirnir spiluðu fótbolta. Vinskapurinn var svo mikill að áður en hermennirnir yfirgáfu landið gerðu þeir sér ferð út í Suðursveit, þar sem strákarnir dvöldu á sumrin, til að kveðja þá.
Upp úr 14 ára aldri fóru strákarnir á sjó og voru á hinum ýmsu bátum en árið 1956 fóru þeir í útgerð saman ásamt Ásgeiri Núpan og Karli Sigurgeirssyni. Fyrsti báturinn þeirra fékk nafnið Akurey SF 52, en á þessum árum var mjög algengt að bátar bæru nöfn eyjanna í bæði Hornafirði og Skarðsfirði. Árið 1963 létu þeir Ágúst, Ásgeir og Haukur smíða fyrir sig nýjan bát, sem einnig bar nafnið Akurey. Sá bátur endaði daga sína á þurru landi, þar sem hann stóð lengi í sandinum við bryggjuna á Höfn.
Hulda Laxdal Hauksdóttir, 26. október 2022
Ég er fædd 20. ágúst 1972 á Kirkjubraut 12 sem hét áður Víðihlíð.
Þar bjó ég fyrsta árið en flutti svo á Kirkjubraut 14.
Amma og afi, langamma og langafi bjuggu á Kirkjubraut 12 og voru með kindur og hænur þar sem nú er Júllatún.
Júllatún heitir Júllatún vegna þess langafi minn sem hét Júlíus Sigfússon, alltaf kallaður Júlli, átti tún þarna. Hann var með 10-20 kindur og um 5-10 hænur. Á sumrin var heyjað á Júllatúninu. Fljótlega eftir 1980 var hætt með búskap á Júllatúni og í kringum 1990 var byggt þar.
Heiður Kristín Sigurgeirsdóttir
Í kringum og upp úr 8. áratug síðustu aldar var mikill rígur á milli innbæinga og útbæinga á Höfn. Mörkin lágu við Litlubrú, útbærinn sneri að sjónum en innbærinn að fjöllunum. Dæmi um samkeppnir á milli bæjarhlutanna eru til dæmis áramótabrennur, alltaf voru tvær brennur, ein í sitthvorum bæjarhluta. Keppni var um hvor brennan lifði lengur. Stundum stálu menn úr brennu andstæðinganna áður en kveikt var í. Yngri kynslóðin vakti oft eftir foreldrum sínum til þess að spyrja hvort bálin loguðu enn þegar þeir komu heim af áramótaballi. Einnig voru stundum ,,stríð‘‘ á milli barnanna, innbæingar á móti útbæingum. Ekki voru leikirnir alltaf fallegir, menn notuðu spýtur, heimatilbúna boga og örvar, grjót, reipi til að binda hvort annað við staura og þaðan fram eftir götunum.
Algengt var að krakkar léku sér í indjána- og kúrekaleikjum, með bogum og platbyssum. Björn Sigfinnsson var í indjánaflokknum Rauðu örvarnar. Meðlimir flokksins útbjuggu sér boga og örvar. Það eina markverða sem þeir hæfðu var ljósastaur. Þeir flúðu þá eins og þeir ættu lífið að leysa í höfuðstöðvar sínar.
Það var mjög vinsælt á meðal krakkanna að sigla á flekum, dekkjum eða bátum eða einhverju slíku í firðinum. Þá var sjávarstaða mun hærri en 2022, þegar Björn segir þessa sögu. Björn og félagar áttu nokkra fleka, sá besti var úr tveimur olíutunnum, ein á hvorum enda, tvö lög af spýtum á milli tunnanna og svo eitthvað flothæft á milli spýtnanna, eins og brúsar eða eitthvað. Það var gott skip. Óhöppin urðu þó einhver og þá var það næsti fullorðni aðili sem varð hrakfallabálkunum að liði. Allir fylgdust með öllum, engum þótti neitt athugavert við það að einhver fullorðin húðskammaði barn þó svo að viðkomandi væri ekki forráðamaður þess. Börnin sátu undir skömmunum og drifu sig svo í næstu ferð.
Eitt sinn var Björn í feluleik með fjórum félögum sínum. Hann faldi sig ásamt einum öðrum í fjörunni, undir bröttum bakka. Allt í einu heyrðu þeir mikinn hávaða. Fyrr en varð flaug mótorhjól yfir þá og lenti í leirnum. Þá hafði ökumaðurinn verið óvanur og mætt olíubíl á gatnamótum. Hann hafði ekki verið nógu snöggur að bregðast við og endaði í fjörunni.
Birni og félögum þótti mjög gaman að leika sér í kartöflukössum sem var staflað við kartöflugeymslurnar á Höfn. Þeir skriðu og tróðu sér um hauginn.
Menningarlífið var fjörugt, það voru reglulega haldnir tónleikar í Sindrabæ, þá mættu unglingarnir á sama tíma og hljómsveitin og hjálpuðu hljóðfæraleikurunum að bera inn hljóðfærin. Þegar tónleikarnir hófust stóðu ungmennin fyrir utan Sindrabæ og hlustuðu á tónlistina, oft fram á rauða nótt. Stundum skaraðist lögreglan í leikinn og rak þá heim. Maður þurfti að vera 16 ára til þess að komast inn á böllin og fyrir hina yngri voru skólaböll haldin reglulega.
Björn Sigfinnsson, 27. október, 2022.