Nes
Sögur
Steingrímur kaupmaður var með garð inn í Nesjum og við krakkarnir fórum að vinna hjá honum. Við fengum ekki borgað í peningum, heldur máttum við koma og versla hjá honum fyrir eitthvað visst. Ég man alltaf að ég keypti peysu. Fyrsta peysan sem ég fékk svona úr verslun, mikil uppáhalds peysa hjá mér. Svo máttum við fá sælgæti fyrir afganginn, alveg endalaust en ekki allt í einu. t.d. eina kókosbollu annað slagið. Þetta voru launin.
Ég ólst upp á sama stað og amma og afi til 11 ára aldurs. Ég man eiginlega meira eftir þeim frá þeim tíma en foreldrum mínum enda er ég úr mjög stórum systkinahópi og meira pláss hjá ömmu og afa en foreldrum mínum. Við erum 9 systkini og ég 3 elst.
Ég fermdist 1964 en það var í síðasta skipti sem gamla kirkjan við Laxá í Nesjum var notuð við slíka athöfn. Hún stóð við Laxá við kirkjugarðinn. Kirkjan var orðin mjög léleg og grjót farið að hrynja af henni. Við fermingarbörnin fórum einusinni öll þangað með prestinum þegar gengið var til spurninga. Hann sendi strákana upp í turninn til að hoppa og sparka í turninn innanverðan til að lausir steinar hrundu niður svo það lenti ekki á fólki þegar það kæmi til kirkju. Þeir hoppuðu þarna og skoppuðu og fannst svo gaman því svo mikið hrundi. Ég man ekki eftir að það hafi hrunið neitt í fermingunni sjálfri.
Fædd 1950 á Valgeirstöðum (Svalbarði 9) á Höfn. Ástríður Sveinbjörnsdóttir
Ketillaugarfjall er 668 m hátt fjall í Nesjum í Hornafirði. Fjallið er nokkuð bratt og litríkt. Sú þjóðsaga er sögð um fjallið, að tröllskessan Ketillaug hafi gengið í fjallið og hafði hún með sér ketil með gulli. Nafn fjallsins er oft sagt dregið af Ketillaugu. Sagan segir að ef maður gangi upp fjallið aftur á bak, án þess að horfa nokkru sinni upp það, finni maður gullfylltan ketilinn þegar toppnum er náð.
Nálægt fjallinu er að finna ölkeldur og heimildir eru um að allnærri fjallinu hafi fundist heit uppspretta. Einnig gefur litadýrðin til kynna jarðhita. Þannig gæti nafnið ketillaug einfaldlega þýtt heit uppspretta eða eitthvað á þá vegu.
Laxá rennur fram hjá Akurnesi í Nesjum, Hornafirði. Hún liggur nálægt bænum og getu verið nokkuð straumhörð þegar mikið er í henni. Þar að auki eru víða hylir við bakkana. Til þess að börn myndu ekki þvælast of nálægt henni eftirlitslaus og eiga á hættu á að detta ofan í var þeim sagt frá áarkallinum. Hann bjó í ánni og tók litla krakka sem voru einir nálægt bökkum hennar.
Sagan er nú bara uppspuni og byrjaði hálfgert í gríni en hún stendur fyrir sínu. Börnin muna eftir áarkallinum og hafa sagt sínum börnum hana.
Ragnar Jónsson, 28. október 2022.
Sagan segir að Keltar hafi hafist við á Íslandi á Landnámsöld. Margir þeirra komu sem þrælar víkinganna, en margir komu þó til landsins sem frjálsir menn. Þeir sem voru þrælar urðu margir hverjir fljótlega frjálsir menn. Austur-Skaftafellssýsla var að miklu leiti byggð af Keltum. Eins og víðar á Íslandi eru mörg örnefni sem eiga rætur sínar líklega að rekja til keltnesku, eða gelísku. Oft eru örnefnin tvínefni. Það eru oft tvö nöfn á mörgum stöðum, annað nafnið eitthvað algengt sem við skiljum í dag og annað nafn sem er frekar skrýtið og er keltneskt. Eftirtalin eru dæmi um það:
- Vatnsfallatindar inni á Laxárdal – vatnaskilin milli Lóns og Ness. Þar við hliðina á er dalur sem heitir Flotbeinsdalur.
- Flot=vatn á gelísku
- Bein=fjall á gelísku
- Flotbeinsdalur=Vatnsfjalladalur
- Grænn og breiður hjalli inni á Laxárdal sem nær yfir í Lón. Nesjamegin kallast hann Loðnihjalli en Lónsmegin kallast hann Fagrihjalli.
- Fer=grænn eða grösugur
- Meðalfell
- Mellem=fell
- Klukkugil
- Papar hentu dýrgripum sínum niður klukkugil svo Írarnir tækju þau ekki
- Loklausidalur
- Klukkugil (Klettótt gil)
- Klach / gloch = klettur
- Kexishöfði er klettastrangur úti í firði
- Kexið er klettastrýta við hliðina á Almannaskarði
- Kráksgil er klettótt gil í Hoffelli
- Annað dæmi eru Dyrfjöll í Borgarfirði eystri. Þau eru af sumum kölluð Beinageitafjöll.
- Bein=fjall
- Geit=dyr
- Samkvæmt þessu gæti Geitafell verið dyrfell
Af þessu má draga að annað hvort hafi mállýskan hérna verið slangur úr keltnesku / gelísku eða þá að Keltar byggðu Hornafjörð. Ef til vill voru Keltar ekki eingöngu þrælar heldur einfaldlega íbúar á svæðinu og að af þeim séu margir Hornfirðingar komnir. Einnig gæti verið að þeir hafi bara verið þrælar og þar sem þeir sáu um vinnuna hafa þeir ef til vill gefið stöðum nöfn. Þau nöfn hafa svo haldist.
Eitt sinn um vertíð voru sjóstakkar fluttir inn frá Írlandi. Þeir pössuðu illa á Austfirðinga en vel á fólk frá Suð-austurlandi – sama líkamsbygging og á Keltunum. Keltar koma frá Bretlandseyjum. Velta má fyrir sér hvort að Ingólfur Arnarson hafi ekki verið fyrsti landnámsmaðurinn, ef til vill voru Keltar landnemar. Sögur fara af landnámsmanni að nafni Ketill, er nam land í Nesjum í Hornafirði. Lítið sem ekkert annað er vitað um hann, en vel gæti hugsast að allir Hornfirðingar séu af honum komnir. Gæti verið að hann sé bara uppspuni úr Landnámu?
Sveinn Rúnar Ragnarsson, 26. október 2022.